300 N. Washington St.
Suite B-100
Alexandria, VA 22314
info@globalsecurity.org

GlobalSecurity.org In the News




Morgunblaðið March 26, 2003

Harðsnúnasta deild Lýðveldisvarðarins

Ein harðsnúnasta deild Lýðveldisvarðar Íraks, sérsveita Saddams Husseins forseta, er hin svonefnda Medina-deild, sem í eru um tíu þúsund menn, að því er The New York Times greinir frá. Þeir hafa nú tekið sér stöðu suður af Bagdad, búnir m.a. T-72-skriðdrekum sem smíðaðir voru í Sovétríkjunum.

"Þetta er ein besta deild Lýðveldisvarðarins og ein sú öflugasta," hefur New York Times eftir bandaríska undirhershöfðingjanum Stanley A. McChrystal. "Hún er undirstaðan í varnarlínu Lýðveldisvarðarins." Nú, þegar bardaginn um Bagdad er að hefjast, er það lykilspurning fyrir her bandamanna hversu harða mótspyrnu Lýðveldisvörðurinn muni veita.

Lýðveldisverðinum er skipt í sex deildir, sem alls eru skipaðar um eitt hundrað þúsund mönnum, sem sagðir eru hollir Saddam, vera mun betur vopnum búnir er hinn hefðbundni íraski her, og betur þjálfaðir. Þrjár deildir Lýðveldisvarðarins eru nú til varnar við Bagdad. Margir foringjar í Medina-deildinni - og öðrum deildum Lýðveldisvarðarins - koma frá borginni Tikrit, fæðingarborg Saddams, og eru jafnvel mægðir fjölskyldu hans.

Medina var ein af fjórum deildum Lýðveldisvarðarins sem réðust inn í Kúveit annan ágúst 1990, tvær komu úr norðri og tvær, og þar af var önnur Medina-deildin, úr vestri. Aðgerðirnar voru þrautskipulagðar, að því er fram kemur á vefsíðunni GlobalSecurity.org. Um það bil mánuði síðar voru Lýðveldisvarðardeildirnar fjórar komnar aftur til bækistöðva sinna í Írak, en aðrar herdeildir höfðu tekið við stöðu þeirra í Kúveit.

Í lok febrúar 1991, þegar Persaflóastríðið var hafið, beið Medina og aðrar deildir Lýðveldisvarðarins ósigur fyrir sjöundu stórdeild Bandaríkjahers í Suður-Írak, og var 61 skriðdreka og 34 brynvögnum Medina eytt á innan við klukkustund, að því er segir á GlobalSecurity.org.

Síðan 1997 hefur Medina-deildin haft það verkefni að verja Bagdad. Um miðjan september í fyrra fengu Bandaríkjamenn upplýsingar frá gervitunglum um að tvö stórfylki deildarinnar hefðu verið flutt frá bækistöðvum hennar í Taji, norður af Bagdad. Virtist sem markmið tilflutningsins væri að færa fylkin á staði þar sem þau lægju ekki eins vel við höggi fyrir Bandaríkjamenn.

Óttast mikið mannfall í bardaganum um Bagdad

Tom Ricks, hermálasérfræðingur The Washington Post, segir einkum eitt mæla gegn því að innrásarherinn nái skjótum sigri í viðureigninni við sérsveitir Saddams við Bagdad. Það séu landfræðilegar aðstæður; við Karbala - rétt eins og við Umm Qasr og Basra - sé um að ræða þéttbýlis- og landbúnaðarsvæði, sem bjóði hermönnum Íraka óteljandi möguleika á að leynast og flækja innrásarliðið í návígisbardaga, þar sem yfirburðir þess í lofti dygðu skammt. Slíkur návígishernaður gæti kostað talsvert mannfall og dregið stríðið á langinn.

Fréttavefur þýska vikuritsins Der Spiegel hefur eftir Barry McCaffrey, sem var einn æðstu stjórnenda bandarísku hersveitanna sem börðust í Persaflóastríðinu 1991, að hann óttist að bardaginn um Bagdad verði harður. Hann segist óttast að reikna megi með því að allt að 3.000 hermenn bandamanna falli. Að mati McCaffreys hafi bandaríski varnarmálaráðherrann Donald Rumsfeld misreiknað sig við mat á því hvernig átökin myndu þróast. Telur hershöfðinginn fyrrverandi að ráðherrann hafi sent of fáa hermenn á vettvang.


Copyright © 2003, Morgunblaðið